Handbolti

„Þegar vörnin smellur saman hjá okkur verður þetta miklu einfaldara“

Kári Mímisson skrifar
Lena Margrét Valdimarsdóttir stekkur upp og skýtur að marki.
Lena Margrét Valdimarsdóttir stekkur upp og skýtur að marki. Vísir/Hulda Margrét

„Ég er mjög glöð að hafa náð að klára þetta sérstaklega í framlengingunni. Mér fannst við koma sterkari inn í framlenginguna og ætluðum við að klára þetta. Ég er mjög sátt að vera allavega komin með einn sigur.“ Sagði sátt og glöð Lena Margrét Valdimarsdóttir eftir frábæran sigur Stjörnunnar á Val í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta.

Leikurinn í dag var sannkallaður háspennutryllir og þurfti að framlengja leikinn til að skera úr um sigurvegar. Það fór svo að lokum að Stjarnan hafði betur í framlengingunni og sigraði 28-32.

Það var ákveðinn vendipunktur í leiknum þegar Lena Margrét náði að stela boltanum og skora úr hraðaupphlaupi í seinni hálfleik framlengingarinnar. Lena Margrét segist að henni hafði þótt þetta verið komið þegar hún sá að boltinn endaði í markinu.

„Við vinnum boltann og ég gleymi mér smá þegar við vinnum boltann. Ég ætlaði alltaf að keyra en svo kom þessi 50/50 sending sem endar með marki. Mér fannst við vera komnar með þetta þá. Við vorum þá komnar þremur mörkum yfir og tvær og hálf, þrjár mínútur eftir. Í framlengingu er smá erfitt að skora mörk, maður er svo búinn á því. Mér fannst þetta mark klára leikinn og mér leið mjög vel þegar ég sá boltann í netinu.“

Þegar spurt er að því hvað þær geti tekið með sér úr þessum leik eru svörin skýr frá Lenu Margréti sem vill sjá liðið spila betri varnarleik frá fyrstu mínútu leiksins.

„Í seinni hálfleik náðum við að spila miklu betri vörn og mér finnst að þegar vörnin smellur saman hjá okkur þá verður þetta miklu einfaldara. Við verðum að passa að byrja leikinn á mánudaginn strax, mér þótti við byrja smá seint og vorum komnar með 10 mörk á okkur eftir bara tíu mínútur, korter sem er allt of mikið. Það gengur ekkert að byrja leikinn slakandi og ætla svo að vinna það til baka, þær eru allt of góðar fyrir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×