Handbolti

Jafnt í þýðingalitlum Íslendingaslag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron og félagar eru komnir í undanúrslit.
Aron og félagar eru komnir í undanúrslit. Vísir/Vilhelm

Álaborg og Ribe-Esbjerg gerðu 36-36 jafntefli í síðasta leik liðanna í úrslitakeppnisriðli í danska handboltanum í dag. Álaborg var búið að tryggja sér sæti í undanúrslitum fyrir leikinn.

Fyrir leikinn í dag voru Álaborg og Skjern bæði búin að tryggja sér sæti í undanúrslitum en tvö efstu lið riðlanna tveggja í úrslitakeppninni fara áfram. Ribe-Esbjerg var í þriðja sætinu og átti ekki möguleika á að fara ofar.

Það var mikið skorað í leiknum í dag. Staðan í hálfleik var 19-16 fyrir Álaborg sem héldu frumkvæðinu lengst af í síðari hálfleiknum en þegar um fimm mínútur voru eftir jafnaði Ágúst Elí Björgvinsson með skoti yfir allan völlinn, staðan þá 34-34.

Ribe-Esbjerg komst síðan yfir en Álaborg svaraði með tveimur mörkum og náði forystunni á ný. Ribe-Esbjerg jafnaði hins vegar metin og heimaliðinu tókst ekki að nýta sína síðustu sókn. Lokatölur 36-36.

Aron Pálmarsson var einn af þremur leikmönnum Álaborgar sem skoruðu sjö mörk í leiknum og hann gaf þar að auki tvær stoðsendingar. Elvar Ásgeirsson skoraði fimm mörk fyrir Ribe-Esbjerg og gaf fjórar stoðsendingar og þá skoraði Arnar Birkir Hálfdánsson eitt mark. Ágúst Elí varði 10 skot í markinu eða 22% þeirra skota sem hann fékk á sig.

Eins og áður segir var Álaborg búið að tryggja sér sæti í undanúrslitum um danska meistaratitilinn. Þar mæta þeir annaðhvort GOG eða Frederecia sem eru búin að tryggja sér áfram úr hinum riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×