Fótbolti

Birkir tryggði Viking stig

Smári Jökull Jónsson skrifar
Birkir skoraði fyrir Viking
Birkir skoraði fyrir Viking Vísir/Getty

Birkir Bjarnason tryggði Viking eitt stig í norsku úrvalsdeildinni þegar hann jafnaði metin einni mínútu fyrir leikslok gegn Strömgodset. Fleiri Íslendingar voru í eldlínunni í dag.

Viking var í fjórða sæti deildarinnar fyrir leikinn í dag og var á heimavelli gegn Strömgodset sem sat í næst neðsta sæti. Tveir Íslendingar eru á mála hjá Viking, Patrik Sigurður Gunnarsson byrjaði í markinu en Birkir Bjarnason á varamannabekknum.

Leikurinn var markalaus eftir fyrri hálfleikinn en á 75. mínútu kom Jonatan Brunes gestunum í 1-0 eftir sendingu Tobias Gulliksen. Strax í kjölfarið kom Birkir Bjarnason inn af bekknum og hann var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn. Hann jafnaði metin á 89. mínútu og tryggði Viking eitt stig.

Það var aðeins erfiðari dagurinn hjá Brynjari Inga Bjarnasyni og félögum hans í HamKam. Brynjar skoraði sjálfsmark á 7. mínútu og var það eina mark fyrri hálfleiks. Í þeim síðari bættu gestirnir við þremur mörkum og unnu öruggan 4-0 útisigur. Brynjar Ingi lék allan tímann í vörn HamKam.

Bodö/Glimt er efst í deildinni og hefur safnað saman þrettán stigum í fimm leikjum. Viking er í fimmta sæti með átta stig og HamKam í tólfta sæti með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×