Handbolti

ÍBV getur komist í úrslitaeinvígi tvö kvöld í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eyjamenn fagna sigri í fyrsta leiknum á móti FH.
Eyjamenn fagna sigri í fyrsta leiknum á móti FH. Vísir/Hulda Margrét

Eyjakonur tryggðu sér sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta í gærkvöldi og Eyjakarlarnir geta leikið það eftir í kvöld.

ÍBV vann 27-23 sigur á Haukum í framlengdum oddaleik í undanúrslitum Olís deildar kvenna en leikið var í Vestmannaeyjum í gær.

ÍBV mætir Val í úrslitaeinvíginu sem hefst strax á föstudaginn. Þetta er í fyrsta sinn í átján ár sem Eyjakonur spila til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn.

Svo gæti farið að ÍBV komist í úrslitaeinvígi tvö kvöld í röð.

Karlalið ÍBV er komið í 2-0 á móti FH í undanúrslitum Olís deildar karla og þriðji leikurinn er í Kaplakrika í kvöld.

Vinni ÍBV leikinn þá komast þeir í lokaúrslitin á móti annað hvort Aftureldingu eða Haukum.

ÍBV vann fyrsta leikinn með fjögurra marka mun, 31-27, en þann síðasta 31-29 í framlengingu eftir að hafa unnið upp átta marka forskot FH í seinni hálfleiknum.

FH hafði endað ofar en ÍBV í deildinni og unnið báða leiki liðanna í deildarkeppninni.

Leikur FH og ÍBV hefst klukkan 19.00 en hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 18.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×