„Við ætluðum að éta hann. Honum á ekki að líða vel og hann hefði getað haldið þessu áfram út leikinn ef hann vildi, því var lögð mikil áhersla á að taka hann út,“ sagði Pavel í viðtali eftir leik.
Kári skoraði 17 stig í fyrri hálfleik en aðeins tvö stig í þeim seinni. Tindastóll var sjö stigum undir í hálfleik áður en þeir sneru leiknum við og unnu síðari hálfleikinn með 18 stigum.
„Við bæði spiluðum miklu betri vörn og þeir hættu líka að hitta,“ sagði Pavel aðspurður út í mismun á leik liðanna í hálfleikjunum tveimur.
„Vörnin var ekki góð í fyrri hálfleik en við settum nógu mörg skot niður til að halda okkur inn í þessu. Þetta hefði átt að vera verra,“ bætti hann við.
Tindastóll fer því í næsta leik á heimavelli sínum í Síkinu á Sauðárkróki með 2-1 forystu og getur orðið Íslandsmeistari með sigri. Næsta verkefni Pavels er að halda sínum mönnum jarðtengdum.
„Hver einasti leikur hefur sína sögu. Leikir eitt og tvö skiptu engu máli núna í leik þrjú og leikur þrjú skiptir engu máli í fjórða leik, alveg sama hvað er undir. Það verður auðvitað verkefni að halda strákunum á réttum stað og það er vinnan næstu daga,“ sagði Pavel og horfði á björtu hliðarnar.
„Vonandi verður það bara gott [að hafa bikarinn í húsinu] og vonandi kveikir það bara í hungrinu hjá þeim í staðinn fyrir að vekja upp einhvern ótta að þessi bikar sé á leiðinni aftur út úr því húsi. Ég vona að þeir hlaupi útum allan völlinn eins og í dag og horfa svo öðru hvoru á bikarinn, því að þeir vilja sækja hann,“ sagði Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls, að endingu.