Fótbolti

Pochettino hafi samþykkt að taka við Chelsea

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mauricio Pochettino mun að öllum líkindum taka við Chelsea þegar yfirstandandi tímabili lýkur.
Mauricio Pochettino mun að öllum líkindum taka við Chelsea þegar yfirstandandi tímabili lýkur. Justin Setterfield/Getty Images

Argentínski knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino hefur samþykkt að taka við stjórnartaumunum hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea þegar yfirstandandi tímabili lýkur.

Það er enski miðillinn The Telegraph sem fullyrðir þetta, en þar segir að Pochettino muni taka við þegar undirbúningstímabilið hefst. Hann muni því taka við félaginu eftir versta tímabil félagsins í tuttugu ár.

Samkvæmt grein The Telegraph um málið á Argentínumaðurinn að hafa samþykkt tilboð Chelsea aðeins nokkrum klukkustundum eftir að liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Nottingham Forest á heimavelli í gær.

Chelsea hefur verið í þjálfaraleit síðan Graham Potter var látinn fara frá félaginu í byrjun apríl á þessu ári og Frank Lampard tók við sem bráðabirgðastjóri. Gengi Chelsea hefur eins og áður segir ekki verið upp á marga fiska á tímabilinu og liðið situr í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 43 stig þegar liðið á þrjá leiki eftir.

Þá hefur liðið aðeins unnið einn af seinustu ellefu leikjum sínum í öllum keppnum.

Pochettino er ekki óvanur lífinu í ensku úrvalsdeildinni. Hann tók við Southampton árið 2013 og síðan Tottenham ári seinna og stýrði liðinu í um fimm ár.

Síðasta þjálfarastarf Argentínumannsins var hjá franska stórliðinu Paris Saint-Germain þar sem liðið varð franskur meistari undir hans stjórn og vann bæði frönsku bikarkeppnina og franska ofurbikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×