„Við áttum gott samtal um þetta. Ný rannsókn sem gerð var fyrir íslensk stjórnvöld sýnir að það tók marga hvali tvo eða þrjá tíma að deyja,“ segir Vardakar við írska dagblaðið Independent. Vísar hann þá til eftirlitsrannsóknar Matvælastofnunar frá síðasta hvalveiðiári sem vakið hefur mikla athygli og hneykslan.
Vardakar segist hafa gagnrýnt hvalveiðar Íslendinga á leiðtogafundinum.
„Eins og Írar sjálfir, vilja Íslendingar ekki að erlendar ríkisstjórnir segi þeim fyrir verkum. Svo ég ásakaði þá ekki. En ég tók málið upp og hún var viljug að tala um þetta,“ segir hann um fundinn með Katrínu.
Vill sjá endalok hvalveiða
Segir hann að Katrín hefði sagt sér að það væri enn þá óljóst hvort að ný hvalveiðileyfi verði gefin út fyrir næsta ár. Ef svo gæti það verið gert með mun strangari skilyrðum um dýravelferð en nú eru.
„Það er opin spurning á Íslandi um hvort að hvalveiðar ættu að vera leyfilegar eða ekki. Þetta er frekar nýleg hefð í landinu, innflutt af Norðmönnum á síðustu öld,“ segir hann.
Vardakar segir að írskt hafsvæði sé orðið að eins konar verndarsvæði fyrir hvali. Hafi bæði hvölum og höfrungum fjölgað á undanförnum árum við írskar strendur sem sé mikilvægt fyrir bæði ferðamannaiðnaðinn og líffræðilegan fjölbreytileika.
„Ég myndi vilja sjá endalok hvalveiða í öllum heiminum. En við skiljum að aðrar þjóðir taka sínar eigin ákvarðanir,“ segir Vardakar. „Við ætlum ekki að segja öðrum þjóðum hvernig þau eiga að haga sér. Við viljum aðallega tala um samstarf. En við deilum öll hafinu og líffræðilegur fjölbreytileiki er hluti af umræðunni fyrir alla.“