Frænkurnar, sem saman skipa Kremlitaða liðið, eru mættar til leiks á ný og að vana í stíl.
„Við frænkurnar erum náttúrulega komnar í keppnisgallann,“ segir Stefanía. Karen tekur undir með frænku sinni: „Við erum alltaf í stíl og við erum með auka galla planaðan fyrir úrslitaþáttinn.“
Hér í spilaranum fyrir neðan má horfa á þáttinn í heild sinni.
Andstæðingar Kremlitaða liðsins eru ekki af verri endanum í þetta skiptið en það eru mæðginin Heiðar Krummi Hauksson og Hera Dögg Hjaltadóttir.
„Tilfinningin að komast í undanúrslitin var mjög góð. Við vissum það samt - við ætluðum ekki að fara heim,“ segja mæðginin úr Appelsínugula liðinu.
„Aðallega verið í andlegum undirbúningi“
Þá hefur undirbúningur liðanna fyrir undanúrslitin verið misjafn.
„Við Appelsínugula liðið höfum aðallega verið í andlegum undirbúningi,“ segir Hera. Heiðar Krummi tekur undir það.
„Útaf því að við höfum engan tíma til að gera þetta, búið að vera brjálað að gera.“

Ljóst er að Hera Dögg og Heiðar Krummi mæta erfiðum andstæðingum en þær frænkur hyggjast fara alla leið í keppninni. Í síðustu viðureign þeirra frænkna, átta liða úrslitunum, gekk illa að hitta í andlitið á andstæðingnum.
„Nú vonandi hittirðu í andlitið á manneskjunni,“ segir Karen við frænku sína.
„Ég er búin að taka epli úr ávaxtaskálinni og þrusa í blómapotta heima,“ svarar Stefanía sem ætlar bersýnilega ekki að klikka á næsta kasti ef til þess kemur.