Innlent

Vísað frá neyðarskýli og svipti sig lífi skömmu síðar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Neyðarskýlið Lindargötu, fyrir heimilislausa karlmenn.
Neyðarskýlið Lindargötu, fyrir heimilislausa karlmenn. vísir

Heimilislausum manni var ítrekað vísað frá neyðarskýli í Reykjavík að kröfu Hafnarfjarðarbæjar og svipti sig lífi skömmu síðar. Systir mannsins segir hann hafa upplifað niðurlægingu og skilningsleysi.

Frá þessu greinir Heimildin.

Þar er haft eftir systur mannsins sem segir fjárhagsvandræði hafa leitt til dauða mannsins. Í umfjöllunini kemur fram að þann 1. maí hafi gistináttagjald í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar, fyrir fólk með lögheimili utan borgarinnar hækkað um 119 prósent þann 1 maí: úr 21 þúsund krónum í 46 þúsund. Reykjavík er eina sveitarfélagið á Íslandi sem rekur neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk.

„Peningar og samráðsleysi milli sveitarfélaga urðu til þess að bróðir minn er látinn,“ er haft eftir systurinni.

 Maðurinn hafi komið í neyðarskýlið föstudagskvöldið 26. maí en fengið synjun um gistingu. Starfsfólk hafi fengið þær upplýsingar að tilteknum einstaklingum með lögheimili í öðrum sveitarfélögum skyldi vísað frá ef þeir kæmu þangað í leit að skjóli.

„Þetta var í minnst þriðja skipti sem honum var vísað frá. Ég talaði við hann á laugardeginum og við ætluðum að hittast og fá okkur kaffi. Hann svaraði síðan aldrei þegar ég hringdi aftur. Ég vissi ekkert um hann fyrr en spítalinn hringdi,“ segir systirin að auki.

Fólk hafi komið að manninum meðvitundarlausum eftir alvarlega sjálfsvígstilraun og var maðurinn fluttur á sjúkrahús í kjölfarið. Systirin segir manninn aldrei hafa komist til lífs eða meðvitundar aftur. Hann var úrskurðaður látinn 1. júní. 

Í umfjöllun Heimildarinnar kemur einnig fram að maðurinn hafi upplifað skilningsleysi og vanvirðingu. Ýmislegt hafi verið reynt til að fá hjálp í kerfinu og mikið hafi tekið á manninn að hafa verið neitað um gistingu í neyðarskýlinu, sem hann hafi upplifað sem niðurlægingu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×