Noel, sem var annar af forsprökkum hinnar bresku rokksveitar Oasis og núverandi frontmaður sveitarinnar Noel Gallagher's High Flying Birds, er einn af hörðustu stuðningsmönnum Manchester City.
Noel er einnig mikill aðdáandi Erling Håland en þessi mynd var tekinn af þeim félögum um daginn eftir 4-1 sigur City á Arsenal, og nú hefur Noel lofað að endurskapa myndina á tónleikum, sjálfur í hlutverki Håland.
Noel Gallagher and Erling Haaland at the Etihad last night pic.twitter.com/sdwGsPRiFE
— Oasis Mania (@OasisMania) April 27, 2023
Alla jafna missir Noel aldrei af úrslitaleik Meistaradeildarinnar og passar vel upp á að vera ekki bókaður í lok maí, en í ár gleymdi hann að gera ráð fyrir að dagsetningin færðist til vegna HM.
„Ég er samningsbundinn um að spila á þessum tónleikum og það er í góðu lagi. Ég horfi á leikinn á bar í San Diego. Ef City vinnur og Håland skorar þrennu þá fer ég á svið á brókinni.“ - sagði Noel í samtali við vefsíðu Manchester City.
Noel hefur gengið í gegnum súrt og sætt sem aðdáandi City til margra ára, en hann segir að tapið gegn Chelsea í úrslitum Meistaradeildarinnar 2021 sé sennilega það sárasta sem hann hefur upplifað sem aðdáandi liðsins.
„Það lá eitthvað í loftinu þennan dag. Þegar ég vaknaði um morguninn hugsaði ég hvað ég þoli ekki þegar ensk lið mætast í úrslitunum, því það er alltaf glatað að horfa á þá leiki.“
Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu á milli Manchester City og Inter, laugardaginn 10. júní, verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og hefst upphitun fyrir leikinn kl. 18:15.