Öryrkjabandalag Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem fyrirhuguð tveggja komma fimm prósenta hækkun á lífeyri almannatrygginga, sem er hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til að bregðast við verðbólgu, er ekki ekki sögð duga til að verja kaupmátt öryrkja og fatlaðra.
Formaður ÖBÍ segir kröfu bandalagsins um fjögurra komma tveggja prósenta hækkun miða að því að raunverulega verja kaupmáttinn. Í fjárlögum sé gert ráð fyrir núll komma fimm prósenta kaupmáttaraukningu hjá fötluðu fólki.
„En til þess að þessi kaupmáttur aukist og staðið verði við það, þá þarf lífeyrir að hækka meira en verðlag. Það er ekki að gerast með 2,5 prósenta hækkun sem nú er boðuð. Við settumst niður og skoðuðum þetta og förum fram með mjög hóflegar kröfur þegar við förum fram á 4,2 prósenta hækkun,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.
2,5 prósent ekki það sama og 2,5 prósent
Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar felst einnig að dregið verður úr fyrirhugaðri launahækkun æðstu ráðamanna næstu mánaðamót. Launin hækka um tvö komma fimm prósent í stað sex prósenta. Þannig á að hækka lífeyrinn um sama hlutfall og laun ráðamanna. Þuríður bendir á að þarna sé mikill munur á.

„Það er bara gríðarlega mikilvægt að fátækasta fólkið í þessu samfélagi, því sé lyft meira. Það ger gríðarlegur munur á því hvort þú ert að fá 7.000 krónur á mánuði eða 33.000 krónur á mánuði, eða meira.“
„Ef það er raunverulegur pólitískur vilji fyrir því að bæta stöðu þess hóps sem verst stendur í samfélaginu, þá er það vel mögulegt og það er ekki eitthvað sem mun setja samfélagið eða þjóðarbúið á annan endann.“