Eftir að maðurinn stakk fólkið virðist hann hafa rænt bifreið eldri mannsins og ók henni skömmu síðar á fólk sem var að bíða eftir strætó. Þrír slösuðust og einn af þeim er sagður í lífshættu.
Lögreglu barst tilkynning um stunguárás rétt fyrir klukkan fjögur í gærmorgun og fann unga fólkið við Ilkeston Road, norðvestur af miðbænum. Skömmu síðar fannst maðurinn látinn við Magdala Road og virðist sem árásarmaðurinn hafi stolið af honum hvítum sendiferðabíl.
Bílnum var ekið á hóp fólks við strætóbiðstöð nálægt Theatre Royal um klukkan 5.30.
Nemendurnir sem létust voru Barnaby Webber og Grace Kumar, sem spilaði með unglingalandsliði Bretlands í hokkí. Útskriftardansleik sem átti að fara fram á fimmtudagskvöld hefur verið aflýst.
Árásarmaðurinn var skotinn með rafbyssu og handtekinn eftir síðari árásina. Lögregla segist nú leita að farsímum og/eða tölvum sem hann kann að hafa átt og gætu varpað ljósi á atburðina.
Íbúar í Nottingham eru sagðir í nokkru uppnámi eftir árásirnar en lögregluyfirvöld hafa gefið út að þau telja ekki frekari hættu á ferð.