„Við tókum þann pól í hæðina að á meðan það liggur vafi á lögmæti vefverslana að þá myndum við ekki selja slíkum verslunum áfengi. Hins vegar í kjölfarið á yfirlýsingu ráðherra þá hljótum við að endurskoða það,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar í samtali við Vísi.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra lét hafa eftir sér í gær að hann gæti ekki dregið aðra ályktun en þá að netverslun með áfengi væri lögmæt.
Costco og Hagkaup eru meðal verslana sem hafa tilkynnt að þær hyggist hefja sölu á áfengi í netverslunum og þá hefur mbl.is eftir forstjóra Samkaupa að Nettó muni ekki geta setið á hliðarlínunni á meðan og muni því gera slíkt hið sama.
Andri Þór segir að Ölgerðin hafi hingað til unnið eftir áliti sem Félag atvinnurekenda hafi óskað eftir og bárust í bréfi frá dómsmálaráðuneytinu.
„Þar var tekinn af allur vafi um það að innlend vefverslun með áfengi væri ólögleg og það var á þeim grunni sem við tókum þessa ákvörðun á sínum tíma.“
Yfirlýsing ráðherra setji málin í annað samhengi. Ölgerðin hefur hingað til selt Costco áfengi og segir Andri spurður að fyrirtækið muni halda sínu striki.
„Við seljum bara til þeirra sem hafa til þess tilskilin leyfi. En við munum leggjast yfir þetta með okkar lögfræðingum og endurskoða okkar stefnu í þessum málum.“