Fótbolti

Rekinn þrátt fyrir að hafa haldið Bour­nemouth uppi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gary O'Neil hefur verið rekinn frá Bournemouth.
Gary O'Neil hefur verið rekinn frá Bournemouth. Robin Jones - AFC Bournemouth/AFC Bournemouth via Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Bournemouth hefur látið knattspyrnustjórann Gary O'Neil fara frá félaginu, aðeins sjö mánuðum eftir að hann var ráðinn til starfa.

O'Neil tók upphaflega við liðinu sem bráðabirgðastjóri í ágúst á síðasta ári eftir að Scott Parker var látinn taka poka sinn. Hann var svo ráðinn til starfa sem þjálfari liðsins í nóvember og skrifaði þá undir eins og hálfs árs langan samning.

Undir stjórn O'Neil náði Bournemouth í 36 stig í ensku úrvalsdeildinni og endaði í 15. sæti deildarinnar. Liðið tryggði áframhaldandi veru í deildinni þegar fjórar umferðir voru eftir, en fyrir tímabilið spáðu flestir því að nýliðarnir færu beint niður í B-deildina á ný.

„Það sem Gary afrekaði á síðasta tímabili er eitthvað sem við verðum alltaf þakklát fyrir,“ sagði Bill Foley, stjórnarformaður Bournemouth, í tilkynningu félagsins.

„Þetta var ótrúlega erfið ákvörðun, en hún var tekin eftir miklar vangaveltur um það hvernig við getum komið okkur í sem besta stöðu fyrir komandi tímabil.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×