Fótbolti

Arsenal reynir að losa sig við Rúnar Alex

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson á líklega ekki framtíð hjá Arsenal.
Rúnar Alex Rúnarsson á líklega ekki framtíð hjá Arsenal. Vísir/Vilhelm

Enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal er sagt vilja losa sig við íslenska landsliðsmarkvörðinn Rúnar Alex Rúnarsson.

Rúnar gekk í raðir Arsenal árið 2020 frá franska félaginu Dijon, en hefur ekki fengið mörg tækifæri með stórliðinu síðan. Hann hefur leikið einn deildarleik fyrir félagið og samtals eru leikirnir sex í öllum keppnum, sá síðasti gegn írska liðinu Dundalk FC í 3-0 sigri í Evrópudeildinni í október árið 2021.

Síðan þá hefur Rúnar verið á láni hjá OH Leuven í Belgíu og Alanyaspor í Tyrklandi. Enski miðillinn The Daily Express greinir nú frá því að Arsenal vilji losa sig við Rúnar Alex og fullyrðir að félagið hafi boðið belgíska liðinu Anderlecht að kaupa landsliðsmarkvörðinn.

Anderlecht er í markvarðarleit eftir að liðið seldi Bart Verbruggen til Brighton. Talið er að Lundúnaliðið sé tilbúið að láta Rúnar fara fyrir rétt tæpa eina milljón punda, sem er svipuð upphæð og félagið greiddi fyrir hann á sínum tíma.

Þó greina belgískir miðlar frá því að sá verðmiði gæti verið of hár fyrir Anderlecht og því sé ólíklegt að félagið festi kaup á íslenska landsliðsmarkverðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×