Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar segir að norðanáttin verði ekki búin að ná völdum og megi segja að við séum í leifunum af hita helgarinnar.
Hiti verður á bilinu þrettán til 22 stig þar sem hlýjast verður suðvestantil en kaldara á Austurlandi.
„Áttin er norðlæg eða breytileg, víða 3-8 m/s, en en 8-13 um landið norðvestanvert og með austurströndinni. Víða bjart með köflum, en sunnanlands eru líkur á skúrum síðdegis,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Norðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Skýjað og lítilsháttar væta um landið norðaustanvert, en bjart að mestu sunnan- og vestanlands. Hiti frá 7 stigum við norðausturströndina, upp í 19 stig suðvestantil.
Á miðvikudag: Norðan 5-13 og dálítil væta norðan heiða, en stöku skúrir á Suðurlandi. Hiti 5 til 16 stig, mildast suðvestanlands.
Á fimmtudag og föstudag: Ákveðin norðanátt með rigningu og svölu veðri á norðurhelmingi landsins, en þurrt að kalla og mildara sunnantil.
Á laugardag og sunnudag: Norðaustlæg átt og væta af og til, en skýjað með köflum og þurrt að mestu sunnan heiða.