Rutte tók fyrst við embætti forsætisráðherra Hollands árið 2010 og er sá sem lengst hefur gegnt embættinu. Fráfarandi ríkisstjórn er sú fimmta sem Rutte leiðir.
Hinn 56 ára Rutte, sem er formaður íhaldsflokksins VVD, greindi frá ákvörðun sinni á hollenska þinginu í morgun.
„Ég tók þá ákvörðun í gær að ég myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður VVD. Þegar ný ríkisstjórn tekur við stjórnartaumunum eftir komandi kosningar mun ég kveðja stjórnmálin,“ sagði Rutte.
Rutte hefur leitt fjögurra flokka ríkisstjórn síðustu misserin en Rutte gekk á fund konungs á laugardag og tilkynnti að stjórnin væri sprungin vegna deilna um stjórn innflytjendamála.
Enn á eftir að boða formlega til kosninga í landinu, en Rutte verður starfandi forsætisráðherra þar til að ný stjórn tekur við.