Fótbolti

Getur ekki fullvissað stuðningsmenn um að Kane verði áfram

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ange Postecoglou var kynntur til leiks hjá Tottenham Hotspur í dag. 
Ange Postecoglou var kynntur til leiks hjá Tottenham Hotspur í dag.  Vísir/Getty

Ange Postecoglou, sem tók við stjórnartaumunum hjá karlaliði Tottenham Hotspur í fótbolta í byrjun sumars, segist ekki getað veitt skýr svör um hvar framtíð Harry Kane, fyrirliða liðsins, liggur.

Fram hefur komið í þýskum fjölmiðlum að Bayern München hafi boðið tæpar 70 milljónir punda í enska landsliðsframherjann sem ku áhugasamur að færa sig um set til Bæjaralands.  

Þessi 29 ára gamli leikmaður er á lokaári samnings síns hjá Tottenham Hotspur en félagið segir hann ekki vera til sölu. 

„Ég get ekki veitt neina viss um að Kane muni halda kyrru fyrir hjá Tottenham. Þegar kemur að félagaskiptamarkaðnum og mögulegum kaupum og sölum er ekki að slá neinu föstu í þeim efnum,“ sagði Postecoglou á blaðamannafundi í dag.  

„Eins og staðan er núna er Kane leikmaður Tottenham og hann er spenntur fyrir því að mæta til æfinga á miðvikudaginn næsta. Þá mun ég setjast niður með honum, kynna mína hugmyndafræði og þá leiðir sem ég tel færar til þess að liðið njóti velgengni á næstu árum,“ sagði stjóri Lundúnaliðsins. 

Eftir að hafa skorað 30 mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili vantar Kane 48 mörk til þess að skjóta Alan Shearer ref fyrir rass sem markahæsti leikmaður í sögu deildarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×