Handbolti

Tap hjá U19-ára liðinu í fyrsta leik milli­riðla

Smári Jökull Jónsson skrifar
U19-ára liðið sem keppir á Evrópumótinu.
U19-ára liðið sem keppir á Evrópumótinu. Facebooksíða HSÍ

U19-ára landslið kvenna í handbolta tapaði í morgun fyrir Hollandi í fyrsta leik liðsins í milliriðlum Evrópumótsins. Lokatölur 32-26 en Ísland mætir Króatíu á morgun.

Ísland lenti í neðsta sæti B-riðils eftir tap gegn sterkum liðum Þjóðverja, Portúgal og Rúmeníu í riðlakeppninni. Liðið keppir því um sæti 9-16 á mótinu og mætti í morgun Hollandi í fyrsta leik sínum í milliriðli.

Holland náði strax góðu forskoti í leiknum í morgun. Liðið komst í 9-3 forystu en íslenska liðið bætti leik sinn eftir því sem á leið hálfeikinn, staðan að loknum fyrri hálfleik 14-10 fyrir Hollendinga.

Munurinn hélst í fjórum til fimm mörkum lengi vel í síðari hálfleik en í sötðunni 25-20 skoraði Holland þrjú mörk í röð og gerði út um leikinn.

Holland vann að lokum 32-26 sigur og því þurfa stelpurnar okkar enn að bíða eftir sínum fyrsta sigri á mótinu.

Lilja Ágústsdóttir var markahæst hjá Íslandi með sjö mörk og Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×