Fótbolti

Frumsýningu á Kenilworth Road í ensku úrvalsdeildinni seinkað

Hjörvar Ólafsson skrifar
Verið að lappa upp á Kenilworth Road, heimavöll Luton Town. 
Verið að lappa upp á Kenilworth Road, heimavöll Luton Town.  Vísir/Getty

Fyrsta heimaleik Luton Town í sögunni í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta karla hefur verið verið frestað þar sem heimavöllur liðsins verður ekki klár í tæka tíð fyrir leik liðsins gegn Burnley. 

Þrátt fyrir að forráðamenn Luton Town haldi því fram að nauðsynlegar endurbætur á vellinum til þess að standast kröfur ensku úrvalsdeildinnar séu á undan áætlun hafa forráðamenn deildarinnar komist að þeirri niðurstöðu í samráði við félögin að skynsamlegast sé að fresta leiknum. 

Luton Town hefur farið úr því að spila í fimmtu efstu deild árið 2014 í ensku úrvalsdeildina en liðið mun leika á stærsta sviðinu í fyrsta skipti á komandi keppnistímabili. 

Heimavöllur Luton Town, Kenilworth Road, tekur 10.356 manns í sæti og verður hann minnsti völlurinn sem hýst hefur leik í ensku úrvalsdeildinni. Ráðast þurfti í 10 milljón punda framkvæmdir á vellinum til þess að fá leyfi til þess að spila þar í deild þeirra bestu.  

Nú þykir hæpið að þeim framkvæmdum sem eru í fullum gangi verði lokið þegar Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans hjá Burnley áttu að mæta á Kenilworth Road 19. ágúst næstkomandi og af þeim sökum verður leiknum seinkað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×