Handbolti

Janus Daði orðaður við Magdeburg

Siggeir Ævarsson skrifar
Janus Daði er Noregsmeistari í handknattleik ásamt Sigvalda Birni Guðjónssyni og samherjum þeirra í Kolstad.
Janus Daði er Noregsmeistari í handknattleik ásamt Sigvalda Birni Guðjónssyni og samherjum þeirra í Kolstad. Kolstad

Þýskalandsmeistarar Magdeburg hafa áhuga á að bæta íslenska landsliðsmanninum Janusi Daða Smárasyni í sínar raðir. Janus er leikmaður Noregsmeistara Kolstad sem eru í miklum fjárhagsvandræðum.

Það er handboltamógúllinn Arnar Daði Arnarsson sem greinir frá þessum tíðindum á Twitter og segir að Janus hafi ekki mikinn áhuga á að taka á sig launalækkun hjá Kolstad, sem virðast vera á hvínandi kúpunni þrátt fyrir mikinn uppgang síðustu misseri.

Ef Janus Smári gengur til liðs við Magdeburg verður hann þriðji Ísendingurinn í herbúðum liðsins, en fyrir eru landsliðsmennirnir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ólafur Ingi Magnússon. Hann yrði jafnframt þriðji meiddi Íslendingurinn hjá liðinu en Gísli og Ólafur eru báðir á sjúkralistanum og Janus að jafna sig af þrálátum axlarmeiðslum.

Kolstad varð þrefaldur meistari í Noregi á síðasta tímabili og hefur verið úthlutað sæti í Meistaradeild Evrópu. Þrátt fyrir góðan árangur innan vallar hefur ekki gengið jafn vel utan hans og illa gengið að fjármagna liðið.

Miklar launalækkanir eru því í kortunum, eða um 30% fyrir komandi tímabil og 20% fyrir það næsta, sem hefur ekki farið vel í leikmenn liðsins sem virðast nú vera margir hverjir að hugsa sér til hreyfings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×