Stúkan vakti nefnilega athygli á ummælum Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara Víkings, um gervigras og gras eftir 2-1 sigur Víkingsliðsins á Meistaravöllum. Víkingar léku á flottum grasvelli KR-inga en eru miklu vanari því að spila á gervigrasi.
Hitt sé fyrir neðan þeirra virðingu
„Víkingar voru í gær að spila á frábærum grasvelli í Vesturbænum. Ég ætla bara að vona að allir leikmenn ætli ekki bara að venja sig á það að spila á gervigrasi og hitt sé fyrir neðan þeirra virðingu,“ sagði Guðmundur Benediktsson, umsjónarmaður Stúkunnar.
„Menn verða að gera sér grein fyrir því að við erum að spila á gervigrasi af því að við búum á Íslandi. Við erum ekki að spila á gervigrasi af því að við viljum spila á gervigrasi. Það er langur vegur frá því,“ sagði Ólafur Jóhannesson, sérfræðingur Stúkunnar.
„Ég er farinn að halda það að það séu nokkrir þjálfarar og leikmenn sem vilja bara spila á gervigrasi og líður ekki vel á grasi,“ sagði Guðmundur.
Vildi að Arnar notaði annað orð
„Ég hefði kosið að sjá Arnar nota annað orð heldur en góðu vanir þegar hann er að tala um gervigras vs gras. Fótboltamönnum á Íslandi hlýtur að dreyma um það spila á grasi eins og KR-völlurinn var í gær. Ég hefði viljað sjá Arnar nota orðið öðru vanir eða að þetta væri öðruvísi aðstæður en þeir væru oftast á,“ sagði Atli Viðar Björnsson, sérfræðingur Stúkunnar.
„Þetta er það skemmtilegast að fá grasvöll eins og hann var í Vesturbænum,“ sagði Atli Viðar.
Það segja allir bara vá
„Það er nú þannig að þegar þú ert á toppnum sem þjálfari þá máttu segja nánast hvað sem er og það segja allir bara vá. Margt sem Arnar hefur sagt upp á síðkastið er náttúrulega bara steypa. Það er bara ekki flóknara en það,“ sagði Ólafur og fékk hlátur að launum frá bæði Gumma Ben og Atla Viðari.
Það má sjá alla umfjöllunina um þetta mál hér fyrir neðan.