Þetta er fullyrt í umfjöllun breska götublaðsins Daily Mail. Tökur á tíundu seríunni hafa farið fram á Mallorca undanfarnar vikur en þar keppast ungir Bretar við að finna ástina.
Lokaþátturinn verður sýndur í kvöld í bresku sjónvarpi og hefur breska blaðið eftir ónefndum starfsmanni í framleiðsluteymi þáttanna að hann geti ekki beðið eftir því að þetta klárist.
„Þetta er búið að vera langt sumar hjá mörgum í teyminu og margir hafa kvartað yfir slæmri hegðun keppendanna sem enn eru eftir,“ hefur miðillinn eftir starfsmanninum. Opinber talsmaður seríunnar segir hana hafa gengið vel og að allir séu miklir vinir.
Starfsmaðurinn segir hinsvegar við breska miðilinn að sumir keppendur hafi hegðað sér eins og algjörar prímadonnur. Þeir hafi búist við miklu af framleiðsluteyminu og verið með mikla stjörnustæla.
„Mjög margir eru orðnir þreyttir. Einn keppenda hefur meira að segja verið sakaður um að hafa stolið áfengi af setti. Þetta er allt saman orðið mjög kjánalegt. Það er eins og þau viti að endirinn nálgist og því finnst þeim þau geta hegðað sér eins og þau vilja.“