Enski boltinn

Fundu nýjan stjóra strax fyrir leikinn við Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Gary O'Neil gerði stórgóða hluti með Bournemouth á síðustu leiktíð en var þó látinn fara frá félaginu. Nú er hann tekinn við Wolves.
Gary O'Neil gerði stórgóða hluti með Bournemouth á síðustu leiktíð en var þó látinn fara frá félaginu. Nú er hann tekinn við Wolves. Getty/Adam Davy

Úlfarnir eru komnir með nýjan knattspyrnustjóra nú þegar aðeins fimm dagar eru þar til að þeir hefja keppnistímabil sitt í ensku úrvalsdeildinni með leik við Manchester United.

Gary O'Neil, sem áður var knattspyrnustjóri Bournemouth, var í dag tilkynntur sem nýr stjóri Wolves og skrifaði hann undir samning til þriggja ára við félagið.

O'Neil tekur við af Julen Lopetegui sem óvænt yfirgaf félagið eins og tilkynnt var um í gær.

Það þótti ekki síður óvænt þegar O'Neil var rekinn frá Bournemouth í júní eftir að hafa stýrt liðinu til 15. sætis í ensku úrvalsdeildinni. Liðið vann 11 af 27 leikjum sínum undir stjórn hans, eftir að hann tók við af Scott Parker sem var rekinn í fyrra.

O'Neil, sem er fertugur, er fjórði stjóri Wolves á síðustu tveimur árum. Eins og fyrr segir verður fyrsti leikur liðsins undir hans stjórn gegn Manchester United, á Old Trafford á mánudaginn.

Lopetegui kaus að yfirgefa Wolves þar sem honum þótti forráðamenn félagsins ekki hafa staðið við gefin loforð varðandi kaup á leikmönnum í sumar, eftir að honum tókst að stýra liðinu frá falli í vor.

Í sumar hafa Úlfarnir selt Ruben Neves til Al-Hilal í Sádi-Arabíu fyrir 47 milljónir punda, og mexíkóska framherjann Raul Jimenez til Fulham fyrir fimm milljónir punda. Félagið hefur hins vegar ekkert verið að kaupa leikmenn, en reyndar endurheimt írska bakvörðinn Matt Doherty frítt í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×