Körfubolti

Bad­mus yfirgefur Stólana með stolna skrautfjöður í hatti sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Taiwo Badmus í leik með Tindastól í lokaúrslitunum í vor.
Taiwo Badmus í leik með Tindastól í lokaúrslitunum í vor. Vísir/Vilhelm

Írski körfuboltamaðurinn Taiwo Badmus verður ekki áfram með Íslandsmeisturum Tindastóls í Subway deild karla í körfubolta. Hann hefur samið við ítalska félagið Luiss Toma Basketball.

Það vakti hins vegar athygli að umboðsskrifstofa Badmus kynnti leikmanninn sinn undir fölsku flaggi þegar hún rifjaði upp Íslandsmeistaratitil Tindastólsliðsins frá því í vor.

Badmus var réttilega kynntur sem Íslandsmeistari en svo kom skrautfjöðrin sem var ekki hans.

Í frétt Tangram Sports umboðsskrifstofunnar um nýja samninginn segir að Badmus hafi verið kosinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar af KKÍ sem er hreinlega rangt.

Badmus er sagður hafa verið valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í fyrra. Það er ekki sannleikanum samkvæmt.

Mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar var liðsfélagi Badmus, Keyshawn Woods.

Woods var með 33 stig í oddaleiknum þar sem hann hitti úr 58% prósent skota út á velli og 90 prósent skota sinna af vítalínunni. Hann var með 18,6 stig og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í úrslitakeppninni.

Badmus var með 12 stig og 10 fráköst í lokaleiknum. Í allri úrslitakeppninni þá var hann með 16,5 stig og 6,9 fráköst í leik.

Badmus var heldur ekki kosinn besti erlendi leikmaður tímabilsins því þau verðlaun hlaut Vincent Malik Shahid hjá liði Þórs frá Þorlákshöfn.

Það er spurning hvort að umboðsskrifstofan hafi landað þessum samningi á þessari mikilvægu staðreynd eða hér sé aðeins um misskilning að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×