Enski boltinn

Chelsea gerir níu ára samning við Caicedo og fær líka Lavia

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hart er barist um hinn 21 árs gamla Ekvadora Moisés Caicedo, sem kom til Brighton fyrir tveimur árum.
Hart er barist um hinn 21 árs gamla Ekvadora Moisés Caicedo, sem kom til Brighton fyrir tveimur árum. Getty/Craig Mercer

Moisés Caicedo virðist vera á leið til Chelsea fremur en Liverpool og mun verða dýrasti leikmaður sem fer á milli enskra úrvalsdeildarfélaga. Chelsea gerir afar langan samning við kauða.

Fabrizio Romano segir skiptin vera á lokametrunum. Mikið hefur gengið á í kringum Caicedo en Liverpool fékk samþykkt kauptilboð í hann fyrir helgi en tilboði Chelsea hafnað. Caicedo vill hins vegar frekar fara til Lundúnafélagsins sem hefur bætt boð sitt og mun festa kaup á miðjumanninum.

Brighton mun fá 115 milljónir punda frá Chelsea fyrir ekvadorska miðjumanninn auk þess að fá hluta af næsta kaupverði hans.

Caicedo er á leið í læknisskoðun á morgun og mun gera samning til 2031, með framlengingarmöguleika til 2032.

Chelsea og Liverpool gerðu 1-1 jafntefli í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Stamford Bridge í dag en Chelsea virðist ætla að hafa betur á leikmannamarkaðinum. Breskir fjölmiðlar greina frá því að Chelsea hyggist ekki aðeins fá Caicedo á kostnað Liverpool heldur einnig Belgann unga Romeo Lavia frá Southampton, sem Liverpool hefur elst við í sumar.

Liverpool leitar áfram logandi ljósi að djúpum miðjumanni, eftir að hafa selt Fabinho og Jordan Henderson til Sádi-Arabíu. Fyrr í sumar yfirgáfu miðjumennirnir Alex Oxlade-Chamberlain, Naby Keita og James Milner einnig félagið en í þeirra stað hafa komið þeir Dominik Szobozslai og Alexis Mac Allister, sem báðir byrjuðu leik dagsins við Chelsea.


Tengdar fréttir

Caicedo hafnar Liverpool og vill bara Chelsea

Enn ríkir algjör óvissa um að Mosies Caicedo gangi í raðir Liverpool frá Brighton, fyrir metfé í enskri knattspyrnu, þar sem að leikmaðurinn er sagður hafa fengið bakþanka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×