Fótbolti

Á leið í fjórða úrslitaleikinn í röð: „Eins og að vera stödd í ævintýri“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sarina Wiegman er á leið í úrslit á stórmóti í fjórða sinn í röð.
Sarina Wiegman er á leið í úrslit á stórmóti í fjórða sinn í röð. Joe Prior/Visionhaus via Getty Images

Sarina Wiegman, þjálfari enska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur náð ótrúlegum árangri sem þjálfari undanfarin misseri. Hún er á leið í úrslitaleik á stórmóti í fjórða sinn í röð og segir að síðustu ár hafi verið ævintýri líkast.

Wiegman fór með hollenska landsliðið í úrslit á EM árið 2017 og HM tveimur árum síðar. Hollendingar urðu Evrópumeistarar árið 2017, en máttu þola 2-0 tap gegn Bandaríkjunum árið 2019. Þá gerði hún Englendinga að Evrópumeisturum á síðasta ári og er nú komin með liðið í úrslitaleik HM.

„Við erum komnar í úrslit. Þetta er ótrúlegt,“ sagði Wiegman eftir að Englendingar slógu Ástrali úr leik í undanúrslitum í gær.

„Mér líður eins og við séum búnar að vinna mótið. Við erum samt ekki búnar að því, en við unnum þennan leik,“ bætti hún við.

Eins og áður segir verður þetta fjórði úrslitaleikur Wiegman í röð á stórmóti og er hún fyrsti þjálfarin til að komast í úrslit HM með tveimur mismunandi þjóðum.

„Líkurnar á því að þú komist í úrslitaleiki á svona mótum, hvort sem það er sem þjálfari eða leikmaður, eru ekkert mjög miklar. Nú er ég á leið í minn fjórða. Ég tek aldrei neinu sem sjálfsögðum hlut, en þetta er eins og að vera stödd í ævintýri,“ sagði Wiegman að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×