Vlatko Andonovski hefur sagt starfi sínu sem landsliðsþjálfari bandaríska kvennalandsliðsins lausu eftir sögulega slakan árangur liðsins á yfirstandandi heimsmeistaramóti og er því sambandið við í þjálfaraleit.
Á sama tíma hefur Wiegman verið að gera frábæra hluti með enska landsliðið undanfarin ár, gert liðið að Evrópumeisturum og nú er liðið einu skrefi frá sjálfum heimsmeistaratitlinum. Fyrir stjórnartíð sína með enska landsliðið hafði Wiegman gert landslið Hollands að Evrópumeisturum.

Þrátt fyrir að stutt sé síðan að fréttir af afsögn Andonovski bárust er Wiegman strax orðuð við landsliðsþjálfarastarfið hjá Bandaríkjunum en framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandsins segir af og frá að hún skipti yfir.
„Þessir orðrómar hafa að sjálfsögðu ekki farið fram hjá okkur,“ sagði Mark Bullingham, framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandsins í samtali við The Guardian.
„Frá okkar hlið standa málin þannig að Wiegman er með samning við okkur til ársins 2025. Hún er að gera frábæra hluti með liðið og við erum miklir stuðningsmenn hennar. Hún er þjálfari sem við viljum hafa hjá okkur til lengri tíma litið.“
Sama hvað það kostar?
„Já þetta snýst ekki um peninga. Við erum mjög, mjög ánægð með hennar störf og teljum að hún sé ánægð hjá okkur. Ég hugsa að það sé svar mitt við þessu.“
Viðræður um nýjan samning enska knattspyrnusambandsins við Wiegman muni eiga sér stað að heimsmeistaramótinu loknu.
