Menning

Unnu hildar­leik hljóm­sveitanna fimmta árið í röð

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lúðrasveit verkalýðsins vann keppnina fimmta árið í röð.
Lúðrasveit verkalýðsins vann keppnina fimmta árið í röð.

Menningarnótt, afmælishátíð Reykjavíkurborgar, fer fram í dag og gátu gestir og gangandi sótt hina ýmsu viðburði í miðbænum.

Um það bil fjögur hundruð viðburðir hafa verið í gangi víðsvegar um borgina í dag vegna Menningarnætur. Meðal þess sem boðið var upp á voru dansviðburðir, vígsla nýrrar bryggju, Reykjavíkurmaraþon og margt fleira.

Klippa: Menningarnótt í fullum gangi

Einhverjir íbúar miðbæjarins buðu fólk velkomið í heimsókn til sín, þar á meðal borgarstjóri sem bakaði vöfflur ofan í þá sem kíktu inn á heimili hans og fjölskyldu. Var þar með gömul hefð íbúa í Þingholtunum endurvakin.

Söng Nakinn í fötum

Þá fór fram svokallaður Hildarleikur hljómsveitanna (e. Battle of the Bands) þar sem þrjár lúðrasveitir kepptust um að vera krýnd besta lúðrasveit borgarinnar.

Karen Janine Sturlaugsson, einn hljómsveitarstjóranna, sagði áður en úrslitin voru kunngjörð keppnina hafa gengið rosalega vel. Hennar sveit hafði unnið fjögur ár í röð og fengu leynigest til að taka lagið.

Karen Janine Sturlaugsson, hljómsveitarstjóri Lúðrasveitar verkalýðsins.Vísir/Dúi

„Við eigum 70 ára afmæli í ár og í vor héldum við stóra tónleika. Jónsi í svörtum fötum var að syngja með okkur þá svo hann kom og söng lag með okkur. Hann söng nakinn en hann var ekki nakinn,“ segir Karen

Unnu fimmta árið í röð

Barist var fram á síðustu stundu með lúðra og slagverk að vopni en á endanum stóða Lúðrasveit verkalýðsins uppi sem sigurvegari og fékk að fara með Monthlemminn heim, þar til á næsta ári.

Lúðrasveit verkalýðsins bar af í keppninni og áttu Lúðrasveitin Svanur og Lúðrasveit Reykjavíkur ekki til nein svör við bæði framkomu og tónlistarflutningi þeirra við mikinn fögnuð áhorfenda.

Dómnefndina í ár skipuðu Jón Jósep Snæbjörnsson, Einar Þorsteinsson og Breki Karlsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×