Fótbolti

Arsenal fær heimsmeistara frá Barcelona

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Laia Codina er gengin í raðir Arsenal.
Laia Codina er gengin í raðir Arsenal. David Price/Arsenal FC via Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal hefur samið við spænska varnarmanninn Laia Codina um að leika með liðinu.

Codina kemur til liðsins frá Barcelona, en þessi 23 ára gamli varnarmaður var hluti af spænska landsliðinu sem tryggði sér heimsmeistaratitilinn á dögunum.

Hún hefur skorað tvö mörk í 32 leikjum fyrir Barcelona á ferlinum. Hún hefur verið hjá Katalóníuliðinu frá því að hún var 14 ára gömul og leikið með öllum yngri liðum félagsins.

Codina, sem á að baki sjö leiki fyrir spænska landsliðið, segist ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um þegar tilboðið frá Arsenal barst.

„Ég er virkilega spennt. Ég veit allt um sögu klúbbsins þannig að þegar ég frétti að Arsenal hefði áhuga þá þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um,“ sagði Codina.

Codina var eins og áður segir hluti af spænska liðinu sem tryggði sér heimsmeistaratitilinn á dögunum og var meðal annars í byrjunarliði liðsins í úrslitaleiknum gegn Englendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×