Fótbolti

Býst við að Nunes fari ekki fet þrátt fyrir verkfall leikmannsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Matheus Nunes er ekki á förum frá Wolves ef marka má þjálfara liðsins, Gary O'Neil.
Matheus Nunes er ekki á förum frá Wolves ef marka má þjálfara liðsins, Gary O'Neil. Jack Thomas - WWFC/Wolves via Getty Images

Gary O'Neil, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Wolves, býst við því að miðjumaðurinn Matheus Nunes verði áfram hjá félaginu eftir að félagsskiptaglugginn lokar þrátt fyrir tilraunir leikmannsins til að þvinga í gegn fé­laga­skiptum til Manchester City.

Englandsmeistarar Manchester City hafa verið á höttunum eftir Nunes undanfarna daga, en Úlfarnir höfnuðu í vikunni tilboði frá félaginu upp á 47 milljónir punda í leikmanninn. Forráðamenn City telja nú að verðmat Úlfanna á leikmanninum sé orðið óraunhæft.

Félagið er sagt vilja yfir 60 milljónir punda fyrir Nunes sem er dýrasti leikmaður Úlfanna frá upphafi. Wolves greiddi 38 milljónir punda fyrir leikmanninn fyrir síðasta tímabil.

Nunes vill hins vegar ólmur komast til City og á mánudaginn bárust fréttir af því að hann væri hættur að æfa með Úlfunum til að reyna að þvinga í gegn fé­laga­skiptum til Englandsmeistaranna.

Þrátt fyrir það telur O'Neil allar líkur á því að Nunes verði enn leikmaður Wolves eftir að félagsskiptaglugginn lokar á föstudagskvöldið næstkomandi.

„Hann er ekki með hópnum núna og það er hans ákvörðun,“ sagði O'Neil.

„Eftir því sem ég best veit hefur ekki borist betrumbætt tilboð. Matheus Nuner er enn okkar leikmaður. Hann er með langan samning við félagið og á þessum tímapunkti býst ég við því að hann verði áfram hér þegar 2. september gengur í garð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×