Enski boltinn

Arsenal huldu­liðið sem gerði mettil­boð í Earps

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mary Earps á ferð og flugi á HM.
Mary Earps á ferð og flugi á HM. PA-EFE/DAN HIMBRECHTS

Fyrir tæpri viku var greint frá því að ónefnt lið hefði boðið í Mary Earps, markvörð Manchester United. Talið er að um hafi verið að ræða metupphæð þegar kemur að markverði en Man Utd neitaði tilboðinu.

Arsenal sótti Alessiu Russo, framherja enska landsliðsins, í sumar frá Man United eftir að hafa reynt að gera hana að dýrasta leikmanni heims í janúar en Man United neitaði tilboðinu þar sem liðið var að berjast á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Á endanum endaði Man Utd í 2. sæti og spilar því í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð á meðan Arsenal endaði sæti neðar. Samningur Russo rann hins vegar út og samdi hún við Arsenal.

Russo er greinilega ekki eini leikmaður Man United sem Arsenal hefur heillast af en nú vill liðið fá landsliðsmarkvörðinn Mary Earps í sínar raðir. Hin þrítuga Earps var frábær á HM í sumar og stóð uppi með Gullna hanskann en þau verðlaun fær besti markvörður HM.

Skömmu eftir að HM lauk bárust fréttir af því að Man Utd hefði hafnað risatilboði í Earps og nú hefur The Mirror greint frá því að huldufélagið sem um er ræðir sé Arsenal. Earps á aðeins ár eftir af samningi sínum og er Man Utd í viðræðum um að framlengja þann samning.

Man United hefur misst nokkuð af sterkum leikmönnum í sumar en Russo fór til Arsena,l Ona Batlle fór til Barcelona og María Þórisdóttir fór til Brighton & Hove Albion. Það er ljóst að félagið má ekki við því að missa Earps ef það ætlar sér að berjast við Chelsea á toppi deildarinnar annað árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×