Fótbolti

Jói Berg og félagar steinlágu gegn Tottenham | Vandræði Chelsea halda áfram

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Heung-Min Son skoraði þrennu fyrir Tottenham í dag.
Heung-Min Son skoraði þrennu fyrir Tottenham í dag. Vísir/Getty

Heung-Min Son var allt í öllu í liði Tottenham er liðið vann öruggan 2-5 sigur gegn Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum hans í Burnley í ensku úrvalsdeildinni í dag. Á sama tíma mátti Chelsea þola 0-1 tap gegn Nottingham Forest.

Heimamenn í Burnley byrjuðu af miklum krafti gegn Tottenham í dag og Lyle Foster kom liðinu yfir strax á fjórðu mínútu leiksins.

Heung-Min Son jafnaði þó metin fyrir gestina á 16. mínútu eftir stoðsendingu frá Manor Solomon áður en Christian Romero kom Tottenham í forystu með þrumuskoti í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

James Maddison skoraði svo þriðja mark Tottenham snemma í síðari hálfleik áður en Heung-Min Son fullkomnaði þrennuna með tveimur mörkum með þriggja mínútna millibili og gulltryggði öruggan sigur Tottenham.

Josh Brownhill kom inn einu sárabótarmarki fyrir Burnley á fjórðu mínútu uppbótartíma og niðurstaðan varð 2-5 sigur Tottenham sem nú situr í öðru sæti deildarinnar með tíu stig eftir fjóra leiki, en Burnley er hins vegar enn án stiga á botni deildarinnar.

Þá mátti Chelsea þola 0-1 tap gegn Nottingham Forest þar sem Anthony Elanga skoraði eina mark leiksins á 48. mínútu. Heimamenn í Chelsea fengu sín færi til að jafna metin, en allt kom fyrir ekki og liðið er því aðeins með fjögur stig, tveimur stigum á eftir Nottingham Forest.

Að lokum gerðu Brentford og Bournemouth 2-2 jafntefli þar sem Bryan Mbuemo reyndist hetja Brentford er hann jafnaði metin á þriðju mínútu uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×