Fótbolti

Spila hljóð­brot af sam­skiptum dómara í nýjum sjón­varps­þætti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Howard Webb, yfirmaður ensku dómarasamtakana PGMOL, mun stýra þættinum ásamt Michael Owen.
Howard Webb, yfirmaður ensku dómarasamtakana PGMOL, mun stýra þættinum ásamt Michael Owen. Mynd/Nordic Photos/Getty

Enska dómarasambandið PGMOL og enska úrvalsdeildin munu reglulega spila hljóðbrot af samskiptum dómara á vellinum og þeirra í VAR-herbergjum landsins í nýjum sjónvarpsþætti þar sem Michael Owen og Howard Webb munu fara yfir VAR-dóma hverrar umferðar fyrir sig.

Dómgæslan í enska boltanum hefur verið harðlega gagnrýnd á tímabilinu og margir aðdáendur ensku úrvalsdeildarinnar hafa kallað eftir bót og betrun.

Þeir Howard Webb, yfirmaður PGMOL, og Michael Owen, fyrrverandi leikmaður Liverpool, Manchester United og enska landsliðsins, ætla sér nú að fara af stað með nýjan sjónvarpsþátt þar sem farið verður yfir VAR-dóma hverrar umferðar fyrir sig og þeir reyna að útskýra hugsunarhátt og ákvarðanatöku dómara og VAR-dómara á leiknum. Þátturinn ber heitið „Mic'd Up.“

Eins og áður segir hefur dómgæslan á Englandi mátt þola mikla gagnrýni á tímabilinu og aðdáendur deildarinnar hafa oft og tíðum klórað sér í hausnum yfir dómum sem þeim hefur þótt furðulegir. Hvort þáttur sem þessi leysi þann vanda að einhverju leyti á þó enn eftir að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×