Sambandið bannaði keppendur frá löndunum tveim í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar á síðasta ári. Rússneskir og hvítrússneskir keppendur geta nú snúið aftur til keppni í sundi og dýfingum, en þó með ákveðnum skilyrðum.
Keppendur frá löndunum geta aðeins tekið þátt undir hlutlausum fána og þá þurfa þeir að sýna fram á að þeir styðji ekki stríðið í Úkraínu.
Þá hefur alþjóðasundsambandið einnig sent frá sér sjö blaðsíðna skjal með skilyrðum í 14 liðum, auk viðauka, sem keppendur fra löndunum tveimur þurfa að fylgja eftir. Þar kemur meðal annars fram að engin keppni á vegum sambandsins skuli vera haldin í Rússlandi eða Hvíta-Rússlandi og að keppendur frá löndunum megi ekki mæta í fjölmiðlaviðtöl á keppnum á vegum sambandsins.
Skjalið í heild sinni má finna með því að smella hér.
Þá munu keppendur sem taka þátt undir hlutlausum fána ekki fá að taka þátt í boðsundi, samhæfðum dýfingum, vatnspólói eða öðrum hópgreinum.