Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ölgerðinni þar sem lýst er miklum vonbrigðum með þær upplýsingar sem hafi komið fram í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins vegna ólögmæts samráðs skipafélaganna Eimskips og Samskipa.
„Í gögnum Samkeppniseftirlitsins kemur m.a. fram að þegar Ölgerðin gerði athugasemdir við verðhækkanir Eimskipa vegna flutningsþjónustu fyrir fyrirtækið árið 2009 og fór í framhaldinu í útboð um flutningana, hafi fyrirtækin tvö ekki aðeins haft samráð um málið, heldur hafi verið lagt fram sýndartilboð og verðið síðan hækkað enn frekar,“ segir í tilkynningunni.
4,2 milljarða króna sekt
Greint var frá því í síðustu viku að Samkeppniseftirlitið hefði sektað Samskip um 4,2 milljarða króna vegna samráðsins og teldi fyrirtækið hafa með alvarlegum hætti brotið gegn samkeppnislögum með ólögmætu samraði við Eimskip.
Samskip hafnar niðurstöðu eftirlitsins, en Eimskip hafði áður gengist undir sátt fyrir Samkeppniseftirlitsins vegna málsins.
Reiðarslag
Í tilkynningunni frá Ölgerðinni er sömuleiðis haft eftir Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar, að þær upplýsingar sem fram komi í rannsókn Samkeppniseftirlitsins séu reiðarslag fyrir íslenska neytendur.
„Svik við okkur sem einn stærsta viðskiptavin Eimskipa á þessum tíma, svik við viðskiptavini okkar og afhjúpar viðskiptahætti sem eru okkur algjörlega óskiljanlegir,“ segir Andri Þór.
„Hann segir það deginum ljósara að samráð skipafélaganna hafi valdið félaginu og neytendum verulegum skaða og stórfelldu fjárhagslegu tjóni. „Við erum að skoða þann möguleika að sækja skaðabætur í ljósi niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins.“