Enski boltinn

Oftast brotið á Ayew í ensku úr­vals­deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jordan Ayew hefur spilað 163 deildarleiki fyrir Crystal Palace og skorað 18 mörk.
Jordan Ayew hefur spilað 163 deildarleiki fyrir Crystal Palace og skorað 18 mörk. vísir/Getty

Jordan Ayew, leikmaður Crystal Palace, er sá leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar sem hefur oftast verið brotið á undanfarin tvö tímabil. Er hann þar á undan leikmönnum á borð við Jack Grealish, Bukayo Saka og James Maddison.

Þegar hugsað um leikmenn sem oft er brotið á innan knattspyrnuvallarins þá leitar hugurinn að snöggum vængmönnum eða framherjum sem eru duglegir að finna snertingu. Jordan Ayew er hvorugt.

The Athletic hefur tekið saman hvaða leikmönnum er mest brotið á síðan í upphafi tímabilsins 2022-23. Þar trónir hinn 31 árs gamli Ayew efstur en segja má að hann spili sem varnarsinnaður vængmaður í liði sem er ekki þekkt fyrir blússandi sóknarleik.

Í úttekt miðilsins kemur fram að síðan í upphafi síðasta tímabils hefur verið brotið 105 sinnum á Ayew. Þar á eftir kemur Bruno Guimarães (96 brot), James Maddisson (90), Jack Grealish (83) og Wilfried Zaha (77).

Zaha, fyrrum samherji Ayew hjá Palace, er í dag leikmaður Galatasaray í Tyrklandi. Zaha var helsta sóknarógn Palace til fjölda ára og var ítrekað sparkaður niður. Ef farið er aftur til 2018 þá er Zaha sá leikmaður sem hefur oftast verið brotið á.

Þar sem Zaha er horfinn á braut gæti farið svo að Ayew fái meira vægi sóknarlega en sem stendur virðist hans helsti eiginleiki vera sá að láta andstæðinginn brjóta á sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×