Ísland er í riðli með Tékklandi, Danmörku, Wales og Litháen í undankeppninni.
„Þetta er spennandi verkefni, spennandi riðill og spennandi lið sem við erum með í höndunum. Ég hlakka bara til að byrja þetta,“ segir Davíð Snorri.
„Möguleikar okkar eru jafnt á við alla hina. Þetta snýst um að koma út sem sigurvegari úr hverjum landsleikjaglugga og sýna fólki hvað það þýðir fyrir okkur að spila fyrir Ísland.“
Hvernig muntu leggja leikinn upp gegn Tékklandi?
„Fyrst og fremst eru ákveðin atriði hvers leiks sem við getum verið bestir í. Það eru einföld atriði leiksins á borð við seinni bolta, hjálparvörn, einn á móti einum og föst leikatriði. Við ætlum að vera með þetta allt á hreinu í leiknum gegn Tékklandi og þegar að það er komið þá erum við með leikmenn sem munu fá fólk til að rísa úr sætum sínum.“
Leikur Íslands og Tékklands í undankeppni EM 2025 verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Við hefjum beina útsendingu frá Víkingsvelli klukkan 16:20.