Enski boltinn

Man United sótti fjórar á glugga­degi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Melvine Malard er mætt til Manchester.
Melvine Malard er mætt til Manchester. Manchester United

Það var nóg um að vera á skrifstofu kvennaliðs Manchester United en silfurliðið frá síðustu leiktíð í ensku úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu samdi við fjóra leikmenn í gær en glugginn til þess að sækja leikmenn er nú lokaður.

Vísir greindi frá því að Irene Guerrero, sem var hluti af heimsmeistaraliði Spánar, væri gengin í raðir Rauðu djöflanna. Hún var sjötti leikmaðurinn sem Man Utd sótti en áður hafði félagið samið við Evie Rabjohn, Gemma Evans, Geyse, Emma Watson og Hinata Miyazawa. Sú síðastnefnda var markahæst á HM.

Það var þó ekki nóg en félagið hélt áfram að sækja leikmenn í gærkvöldi. Hin 26 ára gamla Gabbie George kom frá Everton þar sem hún hefur verið frá árinu 2014. Áður lék hún með yngri liðum Man United. Hún á að baki tvo A-landsleiki fyrir England.

Markvörðurinn Phallon Tullis-Joyce, einnig 26 ára, kom frá OL Reign í Bandaríkjunum. Hún hafði áður leikið með Reims í Frakklandi sem og Miami Hurricanes í bandaríska háskólaboltanum.

Hin 23 ára gamla Melvine Malard kom á láni frá Lyon í Frakklandi. Um er að ræða framherja sem hefur verið á mála hjá Lyon síðan 2014 en var lánuð til Fleury tímabilið 2019-2020. Hún á að baki 21 A-landsleik fyrir Frakkland og hefur skorað í þeim sex mörk.

Alls hefur Man United því sótt níu leikmenn í sumar og ljóst að stefnan er að berjast við Chelsea um titlana á Englandi sem og að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu en til þess þarf liðið að leggja París Saint-Germain að velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×