Fótbolti

Ítrekar að Manchester United sé ekki í krísu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, er viss um að liðið geti snúið genginu við.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, er viss um að liðið geti snúið genginu við. Michael Regan/Getty Images

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, er harður á því að félagið sé ekki í krísu og segir að liðið geti snúið slæmu gengi við ef allir haldi sig við það sem hefur verið lagt upp með.

Manchester United mátti þola 1-3 tap gegn Brighton & Hove Albion á heimavelli sínum, Old Trafford í gær og liðið hefur nú tapað þremur af fyrstu fimm leikjum tímabilsins. United situr í 13. sæti deildarinnar með sex stig og þrátt fyrir að enn sé stutt liðið á tímabilið er liðið nú þegar níu stigum á eftir toppliði Manchester City.

Stuðningsmenn United bauluðu á liðið eftir tapið í gær og hafa greinilega áhyggjur af stöðu mála hjá félaginu. Þetta er versta byrjun Manchester United í deildarkeppni í 34 ár, en þrátt fyrir það segir Ten Hag að félagið sé ekki í krísu.

„Við verðum að standa saman og halda okkur við planið og reglurnar sem við höfum sett okkur og þá munum við snúa genginu við,“ sagði Ten Hag.

„Auðvitað fer þetta slæma gengi í taugarnar á mér, en ég þarf að horfa á það hvernig við spilum. Þetta snýst um karakter og nú þurfum við að sjá hversu sterkir við erum og hvernig okkur gengur að standa saman. Leikmenn þurfa að rísa upp og sýna karakter af því að við höfum sýnt það í öllum leikjunum, sérstaklega í dag [í gær] og gegn Arsenal og Nottingham Forest, að við getum spilað vel og skapað færi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×