Viðskipti innlent

Töldu sig svikna eftir milljarða sölu og stefndu Helga

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Helgi Hermannsson var ekki sáttur við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að hann þyrfti að greiða fyrrverandi starfsmönnum sínum samanlagt 67 milljónir króna. Hann áfrýjaði málinu til Landsréttar þar sem það bíður meðferðar.
Helgi Hermannsson var ekki sáttur við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að hann þyrfti að greiða fyrrverandi starfsmönnum sínum samanlagt 67 milljónir króna. Hann áfrýjaði málinu til Landsréttar þar sem það bíður meðferðar. Vísir/Vilhelm

Helgi Hermannsson, stærsti hluthafi og framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Sling, var í sumar dæmdur til að greiða fjórum hönnuðum samanlagt 67 milljónir króna. Starfsmennirnir stefndu Helga sem þeir töldu hafa svikið sig um gerða samninga þegar Sling var selt fyrir fleiri milljarða króna. Fyrirtæki sem þeir höfðu tekið þátt í að byggja upp og átt kauprétt í.

Í nýsköpunarheiminum kvikna daglega nýjar hugmyndir. Vonin um að hægt sé að byggja upp verðmæta vöru frá grunni. Mörg verkefni renna út í sandinn en örfá fara alla leið. Verða að verðmætum lausnum. Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Sling er dæmi um slíkt.

Í september í fyrra bárust fréttir af því að Sling hefði verið selt á um níu milljarða íslenskra króna. Sling er sam­skipta- og vakta­kerfi fyrir fyr­ir­tæki þar sem starfs­menn vinna á vöktum. Kaupandinn var bandaríska fyrirtækið Toast, sem heldur úti stafrænum vettvangi fyrir veitingastaði og er skráð í kauphöllinni í New York. 

Sviknir um kauprétt

Grafíski hönnuðurinn Bjarki Atlason er einn hönnuðanna sem staðið hefur í stappi fyrir dómstólum að leita réttar síns. Hann kynntist Helga þegar hann starfaði hjá hönnunarstofunni Döðlum Creatives. Þar var hann fenginn til að annast verkefni fyrir Gangverk, þáverandi fyrirtæki Helga. Bjarki gekk svo til liðs við Gangverk árið 2014 sem yfirhönnuður hugbúnaðarins Sling. 

Gangverk var upphaflega stofnað af Helga og Atla Þorbjörnssyni. Deilur milli þeirra Helga og Atla sem hófust árið 2018 urðu þungar og langvinnar en árið 2022 gerðu þeir með sér samning um sættir.

Bjarki eyddi að sögn rúmum sex árum í hönnunina á Sling. Hinir mennirnir sem töldu sig svikna voru auk Bjarka, þeir Aron Ingi Óskarsson hugbúnaðarverkfræðingur, José Eduardo Valenzuela Martinez forritari og Gísli Þór Guðmundsson forritari og hljóðhönnuður auk Piers Biddlestone.

Árið 2016 undirrituðu mennirnir fimm samning um kauprétt á vörunni. Samningur Bjarka kvað á um að hann myndi eignast um 1,8 prósent af vörunni sem jafngildir um 110 milljónum íslenskra króna miðað við söluverðið í september í fyrra, milljarðana tíu.

„Þessir samningar eru til þess gerðir að fólki sé umbunað fyrir góða vinnu og sjái sér hag í því að starfa og vinna að því að gera vörur sem verða mikils virði. Sem varð raunin hér,“ segir Bjarki.

Bjarki segir samstarfið við Helga hafa verið afskaplega gott og að hann hafi verið sérstaklega góður í að búa til góða stemningu á vinnustaðnum. 

Ég leit á Helga sem góðan vin á meðan við unnum saman.

Einstaklega góð hönnun ein af lykilástæðum velgengninnar

Bjarki segist margoft yfir margra ára skeið hafa tjáð Helga að hann vildi nýta sér kaupréttinn. Hið sama hafi gilt um samstarfsmenn hans.

„En Helgi sannfærði okkur um að við myndum bara græja þetta allt þegar félagið væri einhvers virði. Að lokum renna þessir samningar út og Helgi bendir einfaldlega á lögfræðinginn sinn. Ég hafði hitt Helga stuttu áður þar sem hann lagði til og þætti sanngjarnt að ég ætti eitt prósent hlut í Sling. En svo varð auðvitað ekkert af því,“ segir Bjarki. 

Helgi virti ekki þessa samninga og braut loforð sitt við mig og samstarfsmenn mína.

„Þetta er vara sem ég hannaði og samstarfsmenn mínir komu að með margvíslegum hætti. Þessir samningar hefðu skilað mér og okkur dágóðri fjárhæð, sem mér hefði þótt afar sanngjarnt því varan var einstaklega vel hönnuð og útfærð. Það var ein af lykilástæðum velgengni hennar.“

Forstjóri Haga blandast inn í málið

Bjarki segist árum saman hafa verið í sambandi við Helga til að reyna nýta sér kaupréttinn. Auk þess hafi hann ítrekað sent póst á stjórn Sling og óskað eftir fundi til að fara yfir málin. Í stjórn Sling sátu þá Finnur Oddsson, forstjóri Haga, og Jenny Ruth Hrafnsdóttir hjá Crowberry Capital. Að sögn Bjarka sögðust þau ætla að taka málið fyrir á stjórnarfundum en hann hafi svo aldrei heyrt frá þeim.

Þar sem Bjarka og samstarfsfélögum þótti ljóst að Helgi ætlaði ekki að virða samninginn um kauprétt í fyrirtækinu ákváðu fjórir þeirra að höfða mál á hendur Helga. Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í sumar þar sem Reimar Pétursson, einn reynslumesti lögmaður landsins, gætti hagsmuna Helga.

Við aðalmeðferðina kom fram að þann 26. júní 2022, þegar samningarviðræður Toast um kaupin á Sling voru á lokametrunum, hafi Ólafur Björn Stephensen, samstarfsmaður Atla, haft samband við Finn Oddsson í þeirri viðleitni að hann yrði milligöngumaður um kaupréttsamning fyrir hönd Helga.

Samkvæmt gögnum málsins hélt Finnur því fram að Ólafur Björn hefði borið honum þau skilaboð frá Atla að það væri skilyrði fyrir undirritun sinni á kaupsamningsskjölin að Helgi myndi persónulega gera upp við hópinn.

„Sendu fucking samningana“

Eftir nokkurt samtal milli Finns og Ólafs Björns þennan tiltekna dag segir í dómnum að fyrir liggi að Ólafur hafi lagt fram þá tillögu að hópurinn myndi skipta með sér hundrað milljónum.

Eftir samningaviðræður hafi niðurstaðan orðið sú að Helgi myndi greiða þeim 75 milljónir sem hópurinn, fyrrnefndir fimm starfsmenn, myndu skipta með sér í tilteknum hlutföllum. Til glöggvunar er sú upphæð um níu prósent af því sem upprunalegur samningur hljóðaði upp á. Tekið er fram í dómnum að Finnur hafi persónulega komið fram fyrir hönd Helga í þessum samningaviðræðum.

Svo virðist hins vegar sem Helgi hafi verið allt annað en sáttur með þessa niðurstöðu. Í tölvupósti daginn eftir, þann 27. júní, segist Helgi ósáttur við að vera stillt upp við vegg með með þessum hætti, nokkrum klukkutímum fyrir undirskrift á sölu Sling Inc. Sagðist hann verða að skrifa undir samningana við hópinn þrátt fyrir að vera ekki sammála þeim.

„Sem framkvæmdastjóri Sling Inc. ber ég ábyrgð á öllum hluthöfum og starfsmönnum félagsins og verð að hugsa um hag þeirra á þessari stundu sem og framfylgja vilja stjórnar Sling Inc. um sölu á fyrirtækinu. [...] Sendu fucking samningana,“ skrifar Helgi.

Dómsmálið

Svo fór að mennirnir fimm skrifuðu undir uppgjörssamningana og það gerði Helgi líka.

„En þegar kemur að því að greiða þessa uppgjörsamninga neitar hann því og segist hafa verið þvingaður til að skrifa undir þá,“ útskýrir Bjarki.

Þegar ljóst var að Helgi ætlaði sér ekki að standa við gerðan samning höfðuðu þeir dómsmálið gegn honum, allir nema Piers Biddlestone. Í ljós kom að Helgi hafði ákveðið að greiða honum en ekki hinum fjórum. Helgi sagði fyrir dómi að það hefðu verið mistök en gaf ekki frekari skýringar á því. Eftir stóðu því fjórir menn sem sögðu Helga hafa svikið þá um háar fjárhæðir og logið ítrekað að þeim.

Dómur var kveðinn upp í sumar og Helgi var dæmdur til að greiða Bjarka Fannari rúmar nítján milljónir króna. Þá var honum gert að greiða Gísla Þór 32 milljónir króna og José og Aroni Inga um átta milljónir króna.

Helgi áfrýjaði málinu strax til Landsréttar og því óvíst hvenær niðurstaða fæst í málið. Það gæti tekið vel á annað ár.

Ferlið valdið ómældu álagi og streitu

Bjarki segir ferlið, sem hafi verið langt og strangt, hafa tekið mikið á og valdið ómældu álagi og streitu.

„Maður upplifir auðvitað rosaleg svik. Það er sérstaklega sárt að fylgjast með einhverjum hagnast jafn stórkostlega á manns eigin vinnu, sem maður hafði lagt mikið á sig við að útfæra og taldi sig einn af lykil leikmönnum í að sú vegferð gekk jafn vel og raun bar vitni. Það er alveg fullkomin vanvirðing við vinnuna sem ég lagði á mig og skilaði af mér af eftir bestu getu.“

Þegar dómurinn var staðfestur í sumar segist Bjarki hafa trúað að málinu væri loks lokið.

„En af einhverjum ástæðum ákvað Helgi að áfrýja málinu og framlengja þessa þrautargöngu í líklega tvö ár í viðbót. Lögfróðir menn fullvissa okkur um að hann hafi nær engar líkur á að vinna þetta mál.“

„Teymið skiptir öllu máli“

Í viðtali á Vísi árið 2021 sagði Helgi Hermannsson að í nýsköpun væri mikilvægt að gefast ekki upp og velja með sér gott fólk. Lykillinn að velgengni Sling væri starfsfólkið sem hafi þraukað í gegnum árin því oft hafi ferlið verið afar erfitt.

„Teymið skiptir öllu máli og ég er heppinn að vera umkringdur góðu fólki í dag, fólki sem veit hvað það er að gera og hefur metnað og þrautseigju. Þetta eru allt fagmenn á hæsta stigi,“ sagði Helgi.

Á dögunum bárust fréttir af því að Helgi Hermannsson hefði ásamt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Heimi Fannari Gunnlaugssyni verið kjörinn í stjórn Justikal.

Justikal er stafrænt réttarkerfi sem gerir aðilum í dómsmálum kleift að meðhöndla gögn á öruggan og rekjanlegan hátt. Markmið Justikal er að gera málsmeðferðina fyrir dómstólum hraðari, þægilegri og skilvirkari, að því er segir í tilkynningu. 

Helgi er jafnframt stjórnarformaður félagsins.

Segir þá aldrei hafa starfað hjá Sling

Í samtali við fréttastofu segist Helgi Hermannsson telja að margt í forsendum héraðsdóms standist ekki skoðun. Hann sé sannfærður um að Landsréttur muni ógilda dóminn.

„Þrjátíu og tvgeir mjög ánægðir starfsmenn Sling fengu greitt að fullu fyrir sína hluti í félaginu við söluna á fyrirtækinu í Júlí 2022. Allt starfsmenn félagsins sem gáfust ekki upp og stóðu vaktina í gegnum árin með miklum glæsibrag,“ segir Helgi.

Hann fullyrðir að tveir mannanna sem kærðu hann hafi aldrei unnið hjá Sling og hinir hafi hætt störfum þar árin 2016 og 2018.

Þá spyr hann hvers vegna verið sé að krefja hann persónulega um greiðslu, en ekki alla hluthafa félagsins, sem voru 35 við söluna á því. Upprunalegur samningur fjórmenninganna hafi verið við fyrirtækið en ekki sig persónulega.

Víti til varnaðar

Bjarki segist vona að saga þeirra verði öðrum víti til varnaðar. Hann segir mikilvægt fyrir alla sem starfa í hugbúnaðarbransanum að fá lögfræðinga til að lesa yfir samninga og fá skýrar leiðbeiningar um hvernig eigi að snúa sér til að nýta sér kauprétt. 

„Það er ekki nóg að ræða við yfirmann sinn og alls ekki bara treysta því sem manni er sagt. Það þarf að nota réttar boðleiðir og tilkynna til réttu aðilanna. Það á að tilgreina í samningnum hvernig það er gert, við hverja, og yfirleitt með hvaða orðalagi á að gera það.“

Fréttastofa hafði samband við Helga Hermannsson sem óskaði eftir skriflegri fyrirspurn vegna málsins. Í skriflegu svari segist Helgi telja margt í forsendum héraðsdóms ekki standast skoðun. Hann sé sannfærður um að geta sýnt fram á það fyrir Landsrétti sem muni ógilda dóminn. Því hafi hann í samráði við lögmenn sína ákveðið að áfrýja dómnum.

Hann fullyrðir að 32 „mjög ánægðir“ starfsmenn Sling hafi fengið greitt að fullu fyrir sína hluti í félaginu við söluna í júlí í fyrra. Fjórmenningarnir hafi ekki átt skilið greiðslu af ólíkum ástæðum. Gísli Þór og José hafi aldrei verið beinir starfsmenn Sling, Aron Ingi hætt árið 2016 eftir tæplega hálfs árs vinnu og Bjarki hætt snemma árs 2018 til að stofna eigið fyrirtæki, 50skills.

Helgi vísar til deilna við Atla sem hann stofnaði Gangverk með á sínum tíma. Þá hafi hann verið þvingaður til samninga við fjórmenningana um mun hærri upphæð en upprunalegu samningarnir gáfu tilefni til. Hann segir óeðlilegt að hafa verið krafinn persónulega um miklu hærri upphæð en aðrir hluthafar félagsins.

Dóminn í málinu má lesa hér að neðan.

Tengd skjöl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×