Hér má sjá tónlistarmyndbandið:
Ultraflex er skipuð Katrínu Helgu Andrésdóttur sem notast við listamannsnafnið Special-K og hinni norsku Farao.
„Myndbandið sýnir ferli hljómsveitarinnar í kringum tónleika,“ segir Katrín Helga en Ultraflex hefur troðið upp víða og stefnir á tónleika í Hollandi, Noregi og Bretlandi núna í haust.

„Myndbandið hefst á æfingu í dansstúdíói, fer með okkur baksviðs þar sem er verið að gera sig til, fer út í sal með áhorfendum og upp á svið. Við sjáum vini dansa, spila tónlist og fíflast. Myndbandið er tekið upp á DV myndavél af Sigurlaugu Gísladóttur, Jae Tyler spilar á spænskan gítar og Selma Reynisdóttir og Ólafur Daði sprikla um sviðið með álfavængi. Allir eru klæddir í gallaefni og glimmer.“
Lagið er á norsku, þar sem annar meðlimur sveitarinnar er norsk, og fjallar að sögn sveitarinnar um að njóta þess að borða góðan mat.
„Það eru stunur og smjatthljóð ofan á sólríkan hljómagang, djúsí bassalínu og skoppandi laglínur. Þegar þið horfið á Digg digg Deilig getið þið buslað um í góðum straumum Ultraflex,“ segja Katrín Helga og Farao að lokum.
Hér má hlusta á Ultraflex á streymisveitunni Spotify.