Handbolti

Svipað margir mættu á Barcelona Magdeburg og FH og Afturelding

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Handboltaáhuginn í Barcelona virðist vera takmarkaður.
Handboltaáhuginn í Barcelona virðist vera takmarkaður. getty/Marius Becker

Áhuginn á Meistaradeild Evrópu í handbolta virðist vera takmarkaður, allavega ef marka má áhorfendatölur á fyrstu leikjum tímabilsins.

Samtals 60.478 manns mættu á leikina í fyrstu tveimur umferðum riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það gera aðeins 3.779 manns að meðaltali á leik.

Þegar þessar tölur eru settar í samhengi við þann sætafjölda sem er í boði í höllunum sem leikirnir hafa farið fram í kemur í ljós að aðeins 57,9 prósent miðanna var seldur.

Athygli vakti hversu fáir mættu stórleik Barcelona og Magdeburg í Palau Blaugrana í Barcelona í gær. Þrátt fyrir að Evrópumeistararnir hafi verið í heimsókn gerðu aðeins 1.873 manns sér ferð á leikinn. Höllin tekur 7.500 mans í sæti. Til samanburðar mættu 1.770 á leik FH og Aftureldingar í 1. umferð Olís-deildar karla á dögunum.

Barcelona vann leikinn gegn Magdeburg örugglega, 32-20. Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason skoruðu tvö mörk hvor fyrir Magdeburg sem sá aldrei til sólar í leiknum. Emil Nielsen var frábær í marki Barcelona og varði átján skot, eða 49 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×