Það gekk mikið á fyrir tímabilið hjá norska stórliðinu Kolstad. Stórstjörnurnar Sander Sagosen og Magnus Röd gengu til liðs við félagið en einnig bárust fréttir af miklum fjárhagsvandræðum sem urðu til þess að leikmenn yfirgáfu félagið. Þar á meðal var Janus Daði Smárason sem hélt til Magdeburg.
Í dag mætti Kolstad liði Runar sem aðeins hafði unnið einn leik í fyrstu þremur umferðum norsku deildarinnar.
Leikurinn var jafn til að byrja með en Runar náði svo yfirhöndinni og leiddi 18-14 í hálfleik. Áfram hélt Runar að skora í síðari hálfleiknum. Kolstad náði aldrei að jafna og í stöðunni 29-27 náði Runar 7-3 kafla og gekk frá leiknum.
Runar 36-30 Kolstad!
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) September 24, 2023
Kolstad have now already lost more points in the Norwegian league after 4 rounds (3) than they did in the whole regular season last season (2).#handball pic.twitter.com/DP5XYARVq2
Lokatölur 36-30 og óvæntur sigur Runar staðreynd.
Sander Sagosen var markahæstur hjá Kolstad en Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði tvö mörk í dag, bæði af vítalínunni.
„Við mættum illa inn í leikinn og fundum ekki lausnir í vörninni. Við lekum eins og gatasigti. Hrós til Runar sem er betra liðið í dag, en þetta var ekki nógu gott,“ sagði Sagosen í viðtali við norsku sjónvarpsstöðina TV2.