Vísir ræddi í gær við aðstandanda farþega sem var um borð í rútu á vegum SBA - Norðurleið sem keyrði á milli Landmannalauga og Reykjavíkur með farþega frá Ferðafélagi Íslands á sunnudag. Farþegar voru í áfalli vegna aksturslags rútubílstjórans og var farþegum boðin áfallahjálp í kjölfarið.
Gunnar M. Guðmundsson, framkvæmdastjóri SBA, segist í samtali við Vísi ekki vilja tjá sig um málið. Hann segir þó að málið sé afgreitt, það hafi verið leyst með Ferðafélagi Íslands og bendir hann á ferðafélagið vegna málsins. Hann segist ekki telja að eftirliti með því hverjir geti ekið slíkum rútum vera ábótavant líkt og velt var upp í frétt Vísis í gær.
„Það er ágætis eftirlit með þeim, bæði af okkar hálfu og í vegaeftirliti þar sem þeirra gögn eru könnuð. Við fögnum bara öllu eftirliti.“
Vill læra af málinu
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir félagið hafa fundað með fararstjóranum á mánudagsmorgninum. Því næst fundað með stjórnendum SBA.
„Þar komum við á framfæri þessari skelfilegu lífsreynslu farþega í rútunni, sem beinlínis óttuðust um líf sitt og urðu mjög skelkaðir og fólk fór að gráta og hrópa. Á sama tíma gekk mjög illa að fá bílstjórann bæði til að hægja á sér eða stöðva rútuna.“

Páll segir að á fundinum hafi Ferðafélagið lagt fram vinsamlegar kröfur um að rútan yrði tafarlaust tekin úr umferð og sett í skoðun. Í gærmorgun hafi komið í ljós að brotin fjöður væri í rútunni sem að sögn Páls útskýrir að hluta aksturslag rútunnar og eiginleika.
„Við lítum þetta mál grafalvarlegum augum. Það er gríðarlega mikilvægt að tryggja öryggi ferðafólks á landinu. Við í Ferðafélaginu berum ekki ábyrgð á þessum rútuakstri en við viljum að sjálfsögðu læra af því sem þarna gerist og koma því á framfæri við aðra ferðaþjónustuaðila.“
Hvað felst í því?
„Að við viljum benda á þetta og taka þetta samtal. Tryggja að öll skoðun á rútum eða farartækjum innan ferðaþjónustunnar sé í lagi og að fararstjórar, leiðsögufólk eða bílstjórar, eða hverjir það nú eru, hafi öll tilskilin leyfi og réttindi og séu með alla burði til að sinna og veita þessa þjónustu.“