Aces sigraði New York Liberty, 99-82, í fyrsta leik í úrslitum WNBA í gær. Fjölmargar stórstjörnur mættu á leikinn, þar á meðal Brady sem á hlut í Aces.
Look who's back at The @TomBrady // #RaiseTheStakes pic.twitter.com/E3yyJxbH9X
— Las Vegas Aces (@LVAces) October 8, 2023
Leikstjórnandi Aces, Kelsey Plum, kom auga á Brady á leiknum í gær og lét goðsögnina aðeins heyra það.
„Ég horfði á hann og sagði: það var mikið að þú drullaðir þér á leik,“ sagði Plum á blaðamannafundi eftir leikinn.
„Það sem ég elska við hann er að hann var bara: þú veist þegar. Ég er bara hrikalega spennt fyrir að hann eigi hlut í félaginu og skilji hvað það þýði, ekki bara fyrir okkur heldur líka deildina. Og horfi á leiki hjá okkur. Ég grínast en það er frábært að hafa hann hérna og vita að þetta skipti hann máli.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Plum hittir Brady og lætur hann heyra það. Hún gerði það einnig á síðasta tímabili. Brady tók skotunum frá Plum vel, svo vel að hann sendi henni áritaða treyju.
Plum skoraði 26 stig í leiknum í gær sem er það mesta hún hefur skorað í leik í úrslitakeppni á ferlinum. Hún hefur leikið með Aces síðan 2017 og varð WNBA-meistari með liðinu í fyrra.
Kaup Bradys á hluta í Aces voru samþykkt í síðustu viku. „Ég er mjög spenntur að vera hluti af þessu félagi,“ sagði Brady þegar tilkynnt var að hann ætlaði að kaupa hlut í Aces.