Fótbolti

Skref hafi verið tekin til að koma í veg fyrir að VAR-klúðrið endurtaki sig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Simon Hooper kíkir í skjáinn góða í leik Tottenham og Liverpool.
Simon Hooper kíkir í skjáinn góða í leik Tottenham og Liverpool. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Howard Webb, yfirmaður ensku dómarasamtakana PGMOL, segir að mörg skref hafi verið tekin undanfarna daga til að reyna að koma í veg fyrir að álíka VAR-klúður komi aftur upp eins og gerðist í leik Tottenham og Liverpool fyrir rúmri viku síðan.

Tottenham og Liverpool mættust í ensku úrvalsdeildinni þann 30. september síðastliðinn þar sem heimamenn í Tottenham unnu dramatískan 2-1 sigur í leik þar sem sjálfsmark Joel Matip í uppbótartíma réði úrslitum.

Það voru þó ekki úrslit leiksins eða sjálfsmarkið sem gripu fyrirsagnirnar að leik loknum, heldur var það ótrúlegt VAR-klúður um miðjan fyrri hálfleik þar sem löglegt mark var tekið af Luis Diaz, leikmanni Liverpool.

„Við eru búnir að stíga ansi mörg skref til að koma í veg fyrir að mistök sem þessi gerist ekki aftur,“ sagði Webb í þættinum Mic'd Up þar sem farið er yfir stóru dómana í hverri umferð fyrir sig í ensku úrvalsdeildinni.

„Eitt af því sem við þurfum að skoða, og erum búnir að vera að skoða, eru verkreglur um samskipti, sem er eitthvað sem er mjög mikilvægt í myndbandsdómgæslu til að koma í veg fyrir slík mistök.“

„Við kölluðum alla dómarana saman og ræddum um þörfina á því að fara mjög gaumgæfilega í gegnum þessa verkferla. Við erum virkilega vonsviknir fyrir hönd leiksins og við erum virkilega vonsviknir yfir því hvernig fór fyrir orðsporinu okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×