Fótbolti

Þjálfari San Marinó sakar Dani um óheiðarleika

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fabrizio Costantini er þjálfari San Marinó sem situr í 207. sæti styrkleikalista FIFA.
Fabrizio Costantini er þjálfari San Marinó sem situr í 207. sæti styrkleikalista FIFA. getty/Emmanuele Ciancaglini

Fabrizio Costantini, þjálfari karlalandsliðsins San Marinó í fótbolta, segir að Danir hafi sýnt af sér óíþróttamannslega hegðun í leik liðanna í undankeppni EM 2024 í gær.

Þau undur og stórmerki gerðust að San Marinó skoraði í leiknum gegn Danmörku. Markið gerði Alessandro Golinucci á 61. mínútu. Þetta var fyrsta mark San Marinó í undankeppni EM í fjögur ár og fyrsta mark liðsins í keppnisleik í tvö ár.

Leikmenn San Marinó fögnuðu markinu langþráða vel og innilega. Gleði þeirra var þó skammvinn því níu mínútum síðar skoraði Yussuf Poulsen sigurmark Danmerkur og bjargaði andliti frænda okkar.

Costantini var ekki sáttur við markið og taldi að Danir hefðu átt að sparka boltanum út af áður þar sem leikmaður San Marinó lá meiddur á vellinum.

„Þetta var ekki íþróttamannsleg hegðun. Leikmaður okkar var meiddur og Danir héldu áfram. Ég var ekki sáttur við það,“ sagði Costantini.

„Það voru mörg börn sem horfðu á leikinn. Þetta var ekki sanngjarnt. Okkar maður var meiddur. Ég sjálfur hefði sparkað boltanum út af. Við erum vanir að tapa en ekki svona. Ég er reiður. En ég vil óska Dönum góðs gengis þar sem þeir eru nánast komnir á EM.“

Kasper Hjulmand, þjálfari Danmerkur, var ósammála því að Danir hefðu átt að sparka boltanum út af þar sem leikmaður San Marinó hafi ekki verið meiddur, heldur með krampa.

Danir eru í 2. sæti H-riðils undankeppninnar og tryggja sér sæti á EM með sigri á Slóvenum í næsta leik sínum. San Marinó-menn eru hins vegar á botni riðilsins án stiga og með markatöluna 1-26.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×