Enski boltinn

Aston Villa upp í Meistara­deildar­sæti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aston Villa er mætt upp í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Aston Villa er mætt upp í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. EPA-EFE/DANIEL HAMBURY

Aston Villa lenti ekki í teljandi vandræðum með nýliða Luton Town í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag. Brighton & Hove Albion gerði 1-1 jafntefli við Fulham.

John McGinn kom Villa yfir á 17. mínútu en það reyndist eina mark fyrri hálfleiks. Moussa Diaby gerði svo út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks en gestirnir voru ekki líklegir fram að þessu.

Á 62. mínútu setti Tom Lockyer boltann í eigið net og úrslitin endanlega ráðin. Það skipti litlu þó Emi Martínez, markvörður Villa, hafi óvart blakað boltanum í eigið net á 83. mínútu, lokatölur á Villa Park 3-1 heimamönnum í vil.

Á suðurströnd Englands var Fulham í heimsókn. Evan Ferguson kom heimamönnum yfir en João Palhinha jafnaði metin fyrir gestina, lokatölur 1-1.

Með sigri dagsins er Aston Villa komið upp í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 22 stig, fjórum minna en topplið Tottenham Hotspur. Brighton & Hove Albion er í 7. sæti með 17 stig, Fulham í 14. sæti með 12 stig á meðan Luton Town er í 18. sæti með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×