Erlent

Vara við niður­rifi sam­fé­lagsins

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Eyðileggingin er mikil í Gasaborg um þessar mundir. Myndin er frá því í morgun.
Eyðileggingin er mikil í Gasaborg um þessar mundir. Myndin er frá því í morgun. AP/Abed Khaled

Sameinuðu þjóðirnar vöruðu í gær við ummerkjum um að niðurrif samfélagsins sé að eiga sér stað á Gasasvæðinu.

Þetta kemur í kjölfar frétta um að þúsundir örvæntingarfullra Palestínumanna hafi brotist inn í birgðageymslur og vöruhús til að fæða sig og fjölskyldu sína. Skæðar loftárásir Ísraelsmanna gerir þeim erfitt að afla sér nauðsynjavara á annan hátt. CNN greinir frá þessu.

Á blaðamannafundi segir aðalritari Sameinuðu þjóðanna Antonio Guterres að staðan í Gasa „væri að verða vonlausari með hverjum tímanum sem líður.“

Föstudagskvöldið síðasta rufu Ísraelsmenn á sím- og internetsamband á svæðinu sem hefur gert starfsfólki Sameinuðu þjóðanna ókleift að vera í sambandi við stjórnendur. Fjarsambandi hefur þó verið komið aftur á frá og með gærdeginum. Matvælahjálp Sameinuðu þjóðanna tilkynnti að stolið hefði verið úr forða sínum á svæðinu og varaði við „vaxandi hungursneyð.“

„Það eu ummerki um vonleysi og ört vaxandi örvæntingu með hverri mínútunni. Þau eru svöng, einöngruð og hafa þurft að þola ofbeldi og áföll í þrjár vikur,“ segir Samer Abdel Jaber, fulltrúi Matvælahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Palestínu.

Ísraelski herinn tekur fyrir að það sé skortur á matvælum, vatni eða lyfjum á Gasasvæðinu. Það samræmist þó ekki því sem Sameinuðu þjóðirnar og aðrar alþjóðlegar stofnanir segja.

Birgðastuldur sé „tákn um það að algjört niðurrif samfélagsins sé að eiga sér stað eftir þrjár vikur af stríði og þétt umsátur Gasasvæðisins. Fólk er hrætt, reitt og örvæntingarfullt.“ segir Thomas White, framkvæmdarstjóri Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) á Gasasvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×